FORELDRAÞÁTtTAKA

Foreldraþátttaka

Í byrjun hvers skólaárs, eða að hausti, þegar nemendurnir hefja námið mæta foreldrarnir á fyrsta fund vetrarins, en þeir fundir eiga eftir að verða margir. Á þann fund boðar fjölskylduráðgjafinn foreldrana og umsjónarkennara.

Á fyrsta fundi er tekin sameiginleg ákvörðun um:

a.  Námsleg markmið – hvað viljum við sjá hafa breyst í námi og vinnubrögðum nemandans til vors? Getur varðað mætingar, ástundun, vandvirkni, að ná jafnöldrum nemandans í námi og fleira.

b.  Hegðunarleg markmið – hvaða hegðun viljum við sjá hverfa eða minnka, og hvað viljum við sjá í staðinn? Getur varðað hegðun í kennslustundum, frímínútum og heima. Útivistarreglur, svefntíma, matarvenjur og fleira.

c.   Annað – bætt sjálfsmynd, aukið sjálfsöryggi og sjálfsábyrgð.

d.  Fundatíðni – frá því að vera 1x í viku, sem æfinlega er með nýja nemendur, til þess að vera 1x í mánuði með eldri nemendur ef vel gengur hjá þeim.

Þessi atriði eru skráð í fundargerð og notuð við gerð einstaklingsnámskrár. Þau eru síðan endurskoðuð eftir áramót og endurbætt og síðan aftur að vori, en þá er árangur metinn af þessum sömu aðilum.

Á milli þessara þriggja funda sem hér hafa verið nefndir koma foreldrar í skólann reglulega eftir samkomulagi við fjölskylduráðgjafann. Á þeim fundum eru settar niður sameiginlegar reglur og ákveðnar leiðir til þess að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið og  farið yfir það hvernig gengur að framfylgja ákvörðunum. Umsjónarkennari nemandans er þátttakandi á slíkum fundum 1x í mánuði að jafnaði, en oftar ef þurfa þykir.

Við ákvarðanir á meðferðaraðferðum er farið yfir þær aðferðir sem foreldrum hefur gefist vel að nota heima og þær yfirfærðar á þau atriði sem verið er að vinna með í skólanum. Á sama hátt er foreldrum leiðbeint með aðferðir sem gefast vel í skólanum að nota þær heima til þess að ná árangri með hegðun nemenda þar.

Á þennan hátt er bæði verið að nota aðferðir sem nemandinn þekkir og kann á og aðferðir sem eru nýstárlegar fyrir hann.

Foreldrar fá stöðugt upplýsingar um framgang mála, ýmist með daglegri samskiptabók, með netpósti, símtali eða á boðuðum fundi. Látlaust er verið að vega og meta hvort aðferðirnar virka og hvar þær virka. Ekki er hægt að ganga út frá því sem vísu að aðferð sem virkar á einum stað virki endilega vel á þeim næsta. Auk þess sem hinir fullorðnu sem að meðferð nemandans koma eru ólíkir og hafa ólíkan máta að vinna úr og setja fram hugmyndir sínar.

Auk þessa hefðbundna foreldrastarfs eru foreldrar duglegir að koma þegar eitthvað er um að vera, s.s. þemavika, opinn dagur, skoðunarferðir og fleira.

Guðbjörg Ingimundardóttir, fjölskylduráðgjafi